144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

námslánaskuldir.

[10:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að hæstv. fjármálaráðherra undirstrikaði vilja ríkisstjórnarinnar til að vinna markvisst að lausn skuldavanda og að það væri til þess fallið að stuðla að sátt. Ég kem einmitt hingað upp til að ræða ákveðinn skuldavanda, þ.e. námslánaskuldir. Við erum með frétt í blöðunum í dag um að það er fyrirstaða í kjarasamningum við BHM vegna kaupmáttarskerðingar af þessum völdum.

Frá árinu 2008 hafa námslánaskuldir að nafnvirði aukist um 73%, eða úr 117 milljörðum í 202 milljarða. Kemur þar tvennt til, annars vegar fjölgun fólks í námi, en hins vegar hækkun á vísitölu neysluverðs sem auðvitað hækkar námslánin eins og húsnæðislánin.

Ákveðið var að nota 80 milljarða til að leiðrétta forsendubrest verðtryggðra húsnæðislána. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji ekki eðlilegt að forsendubrestur verðtryggðra námslána verði líka leiðréttur. Gildir ekki sama um hækkun á höfuðstól þeirra lána eins og húsnæðislána? Er ekki spurningin um að fara markvisst í að leysa þennan vanda til að stuðla að sátt?