144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

viðræður við Kína um mannréttindamál.

[11:05]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að rifja upp atkvæðagreiðslu sem fram fór í þinginu þegar við greiddum atkvæði um fríverslunarsamning sem Ísland gerði við Kína. Ég lét sannfærast og var á græna takkanum en er nú farin að hafa efasemdir um að ég hafi gert rétt.

Fram kom á heimasíðu utanríkisráðuneytisins vegna þessa samnings að kínversk stjórnvöld gátu ekki fallist á að ríkin mundu árétta skuldbindingar sínar eins og þær eru settar fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eins og algengt er. Því var gerð sérstök yfirlýsing þar sem var meðal annars kveðið skýrt á um virðingu beggja ríkja fyrir sáttmála Sameinuðu þjóðanna og að þau framfylgdu hugsjónum mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Yfirlýsingin fjallar um aukið tvíhliða samstarf ríkjanna og að farið verði í reglubundið pólitískt samráð sem mun meðal annars fela í sér viðræður um mannréttindamál. Ég þarf ekkert að útskýra það fyrir hæstv. utanríkisráðherra eða öðrum hversu gróflega mannréttindi eru brotin í Kína, ef við horfum bara á Norður-Kóreu, Búrma og fleiri staði þar sem kínversk stjórnvöld sjá þarlendum herstjórnum beinlínis fyrir vopnum og beita sér svo með neitunarvaldi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að því að taka á þessum málum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, sem er eflaust sammála mér um hvernig kínversk stjórnvöld haga sér í mannréttindamálum: Hvað hefur verið gert frá því að samningurinn tók gildi af hálfu íslenskra stjórnmála varðandi samráð og viðræður um mannréttindamál? Hvaða árangur hefur orðið af því í ljósi þess að nú eru einir átta, níu mánuðir síðan samningurinn tók gildi?