144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

viðræður við Kína um mannréttindamál.

[11:09]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og brýni hann til dáða. Þetta á væntanlega við um alla ráðherra, mér skilst að hæstv. menntamálaráðherra sé í Kína eða hafi farið til Kína þannig að hann heldur vonandi þessum málum á lofti þar.

Ástæðan fyrir að ég tek þetta upp er sú að margt bendir til þess að mannréttindi í Kína fari frekar versnandi en hitt. Í frétt á RÚV 16. mars kom til dæmis fram að kínversk yfirvöld hafi fangelsað nær 1 þús. baráttumanneskjur fyrir auknum mannréttindum á síðasta ári. Það eru næstum jafn margar handtökur og síðustu tvö árin þar á undan. Einnig eru fréttir af því að fimm konur hafi verið handteknar 6. mars vegna gruns um að efna til þrætna og vandræða eftir að hafa ráðgert að skipuleggja viðburð á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars síðastliðinn. Þær eiga yfir höfði sér fimm ára fangelsi og tölvur, farsímar og margvíslegt efni gert upptækt.

Þetta eru svo gróf mannréttindabrot að mér finnst við verða að stinga niður fæti. Í staðinn fyrir að þetta fari í gegnum einhverjar kurteisislegar viðræður eitthvert hipsumhaps velti ég fyrir mér hvort hæstv. utanríkisráðherra geti ekki beitt sér og verið með yfirlýsingar og kannski haft frumkvæði að því að benda á að við erum ekki sátt við þessa þróun mála. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)