144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[11:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á gildandi lögum sem snerta alþjóðleg öryggismál á tveimur meginsviðum. Þær lúta annars vegar að aðgangi erlendra ríkisfara að íslensku yfirráðasvæði og hins vegar að skilvirkari innleiðingu alþjóðaskuldbindinga varðandi frystingu fjármuna og skyldra mála sem varða þvingunaraðgerðir. Ég leyfi mér að lýsa því hér í stuttu máli en vísa að öðru leyti til ítarlegra athugasemda sem frumvarpinu fylgja.

Í fyrsta lagi er lagt til að reglum um birtingu laga verði breytt til þess að koma til móts við kröfur öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og Peningaþvættisstofnunarinnar um hraðari birtingu lista sem varðar frystingu fjármuna hryðjuverkasamtaka. Í öðru lagi eru gildandi lagaákvæði varðandi komur erlendra ríkisskipa og ríkisloftfara inn á íslenskt yfirráðasvæði uppfærð og gerð skýrari, en í dag byggist veiting aðkomuleyfa fyrir ríkisför til Íslands á tilskipun frá árinu 1939 sem er orðin úrelt. Setning þessara ákvæða veitir afgreiðslu slíkra leyfa styrkari nútímalegri lagastoð og endurspeglar einnig þá réttarþróun sem orðið hefur á þessu sviði á síðustu áratugum, m.a. með tilkomu alþjóðlegra samninga á sviði samgöngumála.

Ég vil taka sérstaklega fram að það er ekki verið að breyta neinu er varðar leyfin sjálf. Það er ekki verið að auka neitt svigrúm umfram það sem er þegar til staðar. Það er engin breyting gerð varðandi heimild sveitarfélaga eða annarra í þessu frumvarpi. Það er eingöngu verið að nútímafæra þessar greinar. Það er ekki verið að auka neinar heimildir þannig að það sé tekið alveg skýrt fram.

Í þriðja lagi er lagt til að heimilað verði að banna viðskipti með vissar vörur, fyrst og fremst af mannréttinda- og mannúðarástæðum, og þessar vörur eru hrádemantar frá átakasvæðum, svokallaðir blóðdemantar, tól til pyndinga og tól til dauðarefsinga.

Í fjórða lagi eru rýmkaðar heimildir til að taka þátt í alþjóðlegum þvingunaraðgerðum samstarfsríkja að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.

Loks er lagt til að rýmkaðar verði heimildir til þess að takmarka erlendar fjárfestingar í fyrirtækjum hérlendis sem framleiða varnartengdar vörur eða vörur með tvíþætt notagildi, þ.e. vörur sem eru bæði til borgaralegra og hernaðarlegra nota.

Ég vil geta þess að forseti Peningaþvættisstofnunarinnar, FATF, kom hingað til lands í janúar sl. ásamt sendinefnd og hitti bæði forsætisráðherra og innanríkisráðherra svo og fulltrúa utanríkisráðherra. Hann ræddi meðal annars alþjóðaskuldbindingar út af peningaþvættismálum sem eru mikilvægar út af bankastarfsemi hér.

Frumvarpi þessu er ætlað að mæta einum af þremur megintilmælum stofnunarinnar sem varða frystingu fjármuna hryðjuverkamanna og samtaka sem fyrr segir. Hin tilmælin lúta að styrkingu Peningaþvættisstofnunarinnar sem er gert í frumvarpi hæstv. innanríkisráðherra um breytingu á lögum um meðferð sakamála og það liggur nú fyrir þinginu. Þriðju tilmælin varða breytingu á peningaþvættislögum sem munu vera í undirbúningi í innanríkisráðuneytinu.

Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu eru til þess fallnar að styrkja stöðu Íslands á alþjóðavísu og ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að þær muni gera það. Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til hv. utanríkismálanefndar.