144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[11:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þó að ekki sé verið að breyta neinu nema kannski orðalagi frá því sem fyrir liggur í núgildandi lögum er ekki þar með sagt að maður sé endilega sammála því sem hefur verið í lögum eða hvernig það hefur verið praktíserað. Vegna þess að hér er þetta frumvarp til umræðu þar sem sagt er mjög skýrum orðum að ráðherra hafi ákvörðunarvaldið og vegna þess að þetta hefur togast á finnst mér bara mjög mikilvægt að koma inn á það hér í þessari umræðu og undirstrika það sem ég tel mjög mikilvægt, sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Það er það sem ég vildi gera hér með ræðu minni.

Hvað varðar breytingar á lögum um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu, og ég náði ekki að koma almennilega inn á í ræðu minni en mun kannski gera á eftir, er ég síður en svo ósammála því að leggja til takmarkanir eða bann við útflutningi á slíkum vörum. Ég er það alls ekki. Þar sem ég er friðarsinni hlýt ég hins vegar að setja spurningarmerki við að eftir sem áður er heimilt að selja slíkar vörur innan Evrópska efnahagssvæðisins og þar er vissulega að finna ýmis ansi stórtæk vopnaframleiðslulönd. Ég sem friðarsinni hlýt að setja spurningarmerki við það.