144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[11:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þessi loftför er hér um áratugalanga aðferð að ræða. Utanríkisráðuneytið hefur haft þetta hlutverk eins og utanríkisráðuneyti eða önnur ráðuneyti eftir atvikum í öðrum löndum. Það þarf alltaf að veita þessi leyfi þegar loftför sem geta talist ríkisloftför eða eru það eru á ferðinni. Þegar verið er að flytja til dæmis kóngafólk þarf að tilkynna það.

Varðandi fyrirtækin er rétt að taka fram að til dæmis eitt íslenskt fyrirtæki er að framleiða kafbáta, svo það sé nefnt, ótrúlega magnað fyrirtæki og flott og með frábærar vörur. Þetta tæki er hægt að nota í borgaralegum og hernaðarlegum tilgangi og þarna myndast óneitanlega oft flókið samspil og geta verið flóknar úrlausnir sem þarf að leysa. Má þá selja þennan búnað til þessa lands en ekki hins? Hverjir eiga þetta fyrirtæki, er það að meiri hluta í eigu útlendinga? Viljum við þá leyfa það o.s.frv.? Þarna er um að ræða búnað sem skiptir verulegu máli, t.d. fyrir þróun á Íslandi, fyrir vísindi, tækni og þekkingu, þetta er þekkingarfyrirtæki, heitir Gavia, minnir mig. Við viljum alls ekki koma í veg fyrir að þetta fyrirtæki geti vaxið áfram og sinnt því sem það er að gera. En þarna verðum við að fara ákveðna línu. Við viljum heldur ekki að þau tæki sem er verið að framleiða þarna séu notuð í hernaðarlegum tilgangi. Þessi búnaður er til dæmis einn af þeim sem verður eftir eitt ár eða eitthvað svoleiðis, ég man ekki alveg tímann, væntanlega ekki hægt að selja til Rússlands, svo dæmi sé tekið, (Gripið fram í.) út af þeim þvingunarðgerðum sem við erum þátttakendur í. Þeir samningar sem nú eru í gildi hjá þessu fyrirtæki við rússnesk stjórnvöld eða fyrirtæki halda áfram gildi sínu. Þetta er dæmi um hvernig það virkar, þetta kerfi sem við erum með hér.