144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[11:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að erlend herskip eða erlendar hernaðarflugvélar eigi ekkert erindi til Íslands. Þeim vilja hefur til að mynda fyrrverandi borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík lýst. En meðan lögin eru þannig að valdið liggur hjá ráðherra getur maður ekki annað en biðlað til ráðherra að hann virði óskir sveitarstjórna á hverjum stað og fari eftir því, að ef sveitarstjórn vill ekki taka á móti hernaðartengdum farartækjum fari ráðherra ekki að þröngva henni til að gera það.

Varðandi búnaðinn er alveg rétt að það eru ótal margir hlutir sem er hægt að nota í bæði mjög góðum tilgangi og eins mjög slæmum. Það sem ég hef áhyggjur af er að það er engin trygging fyrir því hvernig hluturinn verður notaður þegar hann er seldur til ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það er heldur ekkert sem segir að hlutur sem er hægt að nota bæði í góðum tilgangi og slæmum sé endilega notaður í slæmum tilgangi í Rússlandi.

Það sem ég er að benda á er að frá sjónarhóli friðarsinnans er í rauninni um að ræða óskaplega litla vörn gegn því að hægt sé að nota íslenska framleiðslu í hernaðarlegum tilgangi.