144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[11:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Kerskni mín er mjög orðum aukin. Hins vegar gat ég ekki varist því að fá örlítið kikk í mínar írónísku taugar þegar ég las þetta frumvarp og sá efnislega vísan í þær umræður sem hafa átt sér stað hér síðustu vikur, bæði í bréf hæstv. utanríkisráðherra í frægu Brussel-ferðalagi og sömuleiðis þá umræðu sem við áttum um Þróunarsamvinnustofnun.

Hv. þingmaður vísaði til þess að nauðsynlegt væri að vísað yrði til utanríkisstefnu Íslands. Auðvitað er ég sammála því. Það voru akkúrat rök hæstv. ráðherra fyrir því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun að utanríkisstefnan þyrfti að vera skýr. Við vorum á fundi áðan þar sem kom glöggt fram að það var ekkert óskýrt í þeim efnum.

En svo vek ég eftirtekt hv. þingmanns á 3. gr. þessa frumvarps. Hún er dálítið merkileg. Þar er það í gadda slegið að tiltekin gjörð framkvæmdarvaldsins sé ekki heimil nema að höfðu samráði við utanríkismálanefnd. Það er mjög merkilegt að sjá það neglt með þessum hætti inn í lögin, undirstrikað sem hér var sagt á sínum tíma, fyrir tíu dögum eða tveimur vikum, að utanríkismálin hafa annan sess gagnvart stjórnskipaninni en aðrir málaflokkar. Það birtist meðal annars í því að á fleiri en einum stað og fleiri en þessum er kveðið á um sérstakt samráð við Alþingi í gegnum utanríkismálanefnd. Það er ekki svo ég muni vísað með þeim hætti í lögum til nokkurs annars málaflokks eða fagnefndar. Ég tek hins vegar alveg undir það hjá hv. þingmanni að þegar við förum yfir þessi mál í nefndinni er sjálfsagt að reyna að finna sem víðtækasta sátt um það hvernig við getum samþykkt þetta frumvarp, sem ég tel gott, án þess að nokkur telji að það skerði svigrúm sveitarfélaga, almennings eða þjóðarinnar til að hafa tiltekna skoðun, reyndar þá skoðun sem hefur verið (Forseti hringir.) fullgild síðan 1985.