144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[12:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðuna og gaman að sjá það og heyra að við erum hér talsvert mörg sem höfum áhuga á og viljum leggja okkar af mörkum til þess að sveitarfélögin geti haft eitthvað að segja um það til að mynda hvort þau lýsi yfir kjarnorkuvopnaleysi á landi sínu. Nú er það svo að öll sveitarfélögin á landinu að undanskildum þremur hafa skrifað undir slíka friðlýsingu þannig að hún nær yfir nálega allt landið með pínulitlum undantekningum, nær öll sveitarfélögin hafa gefið út skýran vilja í þessum efnum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í sýn hans á önnur vígtól, herskip, herflugvélar, sem ekki bera kjarnorkuvopn, og heræfingar. Ef sveitarfélög lýsa því yfir á sama hátt og með kjarnorkuvopnin að þau vilji ekki umferð slíkra tækja í lögsögu sinni, telur hv. þingmaður að geta þeirra til þess að setja fram slíkar yfirlýsingar sé jafn skýr? Telur hann að hæstv. ráðherra eigi þá að taka tillit til þeirra skoðana sveitarfélaganna þrátt fyrir að það standi í ákvæðum þessa frumvarps að það sé ráðherra sem fari með ákvörðunarvaldið?