144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[12:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er almennt þeirrar skoðunar að sveitarfélög megi hafa hvaða þá skoðun sem þau vilja. Þau geta samþykkt ályktanir um hvaðeina. Þær ályktanir hafa fyrst og fremst það gildi að styðja tiltekinn málstað, tiltekna stefnu. Það breytir ekki hinu, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að slíkar ályktanir hafa ekki lagagildi.

Ef við erum að tala um kjarnorkuvopnaleysi og yfirlýsingar í þá veru hjá sveitarfélögum, þá vill svo til að það fer saman við það sem a.m.k. enn þá er formleg utanríkisstefna Íslands. Ef átt er við skip og flugvélar í her eða sem tengjast herjum annarra þjóða, æfingum t.d., þá er ég þeirrar skoðunar að þó að það sé alveg sjálfsagt að sveitarfélög hafi einhverjar skoðanir á því og samþykki ályktanir geti þau ekki bundið hendur ríkisvaldsins gagnvart því að framfylgja lögum eða alþjóðlegum skuldbindingum.

Varðandi heræfingar þá lít ég svo á að það sé erfitt að taka ákvörðun um það af hálfu stjórnvaldsins að engar slíkar æfingar skuli vera, t.d. eins og þær sem hafa verið og voru í tíð síðustu ríkisstjórnar, æfingar sem beindust að náttúruhamförum og með hvaða hætti liðsafli gæti hugsanlega komið Íslendingum til hjálpar. Um hvaðeina af því tagi sem tengist alþjóðlegum skuldbindingum hygg ég að jafnvel þó að sveitarfélög leggist gegn því geti þau ekki útilokað það, en það yrði auðvitað erfitt að halda úti heræfingum innan tiltekins sveitarfélags ef það væri algjörlega á móti því.

Hv. þingmaður þekkir þetta allt miklu betur en ég og ég man ekki hvort eitt einasta sveitarfélag hafi beinlínis tekið afstöðu gegn slíku. Eins og ég þekki þetta er það fyrst og fremst gagnvart kjarnorkuvopnum.