144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[12:26]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur farið fram um frumvarp til laga um breytingu á lögum sem varða alþjóðleg öryggismál o.fl., þakka hæstv. utanríkisráðherra og öðrum sem tekið hafa til máls, þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir mjög ítarlega, góða og upplýsandi ræðu sem hún flutti um málið, hv. þm. Óttari Proppé sem lagði til að bætt yrði inn í frumvarpið ákvæði sem lyti að rétti sveitarfélaganna til að hafa áhrif á það hverjir gætu heimsótt hafnir og flugvelli á þeirra svæði og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem vísaði hér í hefðir, yfirlýsingar frá fyrri tíð varðandi kjarnorkuvopn og Ísland. Allt var þetta mjög upplýsandi.

Frumvarpið fjallar um fimm þætti og eru þeir tíundaðir í greinargerð með frumvarpinu. Í fyrsta lagi að kveðið verði á um reglur varðandi aðgang erlendra ríkisfara að íslensku yfirráðasvæði. Eins og hér hefur komið fram er hugtakið ríkisfar dulnefni sem notað er í frumvarpinu um herskip og herflugvélar. Þetta er kannski sá þátturinn sem hefur verið mest ræddur í þessari umræðu og bent hefur verið á að endanlegt úrskurðarvald liggur hjá ráðherra hvað varðar heimildir til að heimsækja hafnir og flugvelli. Þingmenn hafa bent á að þarna sé nauðsynlegt að árétta vilja sveitarfélaganna í lögunum og eins og ég sagði áður; vísað hefur verið til sögunnar í þessu efni að fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Íslandi hafi lýst andstöðu við að hingað komi herskip eða flugvélar með kjarnorkuvopn. Vísað er í yfirlýsingu frá því um miðjan níunda áratuginn um að íslensk stjórnvöld vilji ekki að hér séu geymd kjarnorkuvopn. Ég tek undir með þeim sem vilja að áréttað sé í lögunum hver réttur sveitarfélaganna er í þessu efni.

Annar þátturinn sem fjallað er um í frumvarpinu er um heimildir til fljótvirkari birtingar á listum yfir hryðjuverkamenn og samtök þegar frysta þarf fjármuni þeirra. Þarna er kannski fyrst og fremst um tæknilegt málefni að eiga, að hægt sé að vísa í skýrslur og lista á vefsíðu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða Evrópusambandsins eða annarra stofnana. Hins vegar er ástæða til að staldra alltaf við þegar talað er um slíka lista. Við skulum minnast þess að Ísland var sett á hryðjuverkalista bresku stjórnarinnar til að tryggja hagsmuni Breta. Við vorum þar með al Kaída og Norður-Kóreu skilgreind sem hryðjuverkasamtök til þess meðal annars að geta fryst eignir okkar í útlöndum. Við eigum því alltaf að fara varlega þegar um slíka þætti er að ræða.

Í þriðja lagi er kveðið á um heimildir til að rýmka beitingu þvingunaraðgerða í samvinnu við samstarfsríki Íslands. Það er hér sem ég stoppa, ég hef miklar efasemdir um þetta. Verið er að tala um, og það er síðan útlistað í greinargerð með frumvarpinu og náttúrlega í lagaklásúlunni, að útvíkka möguleika stjórnvalda til að taka þátt í þvingunaraðgerðum. Fram til þessa hefur verið vísað til alþjóðastofnana á borð við Sameinuðu þjóðirnar og samtaka sem Ísland á þátt í, og víkka þetta út þannig að það taki til hernaðarbandalagsins NATO og samstarfsríkja Íslands um tilteknar þvingunaraðgerðir. Hvað gæti þetta verið? Þetta gæti til dæmis verið herleiðangurinn til Íraks. Það var samstarfsverkefni sem var ekki á vegum Sameinuðu þjóðanna, ekki einu sinni á vegum NATO, heldur ríkja hinna viljugu eins og það var kallað, „Coalition of the Willing“ eins og það hét. Ef við værum að færa það núna í lög að heimilt sé fyrir ríkisstjórnina að taka ákvörðun um slíkan herleiðangur með því að upplýsa utanríkismálanefnd þingsins en án þess að slík ákvörðun yrði tekin í þinginu yfirleitt, þá finnst mér það stórkostleg afturför. Mér finnst að við eigum að staldra við í þessu efni, ég vil alla vega skilja nákvæmlega hvað það er sem hér er verið að fjalla um, því að þarna er verið að víkka út heimildir ríkisstjórnarinnar til þess að taka þátt í þvingunaraðgerðum með hópi ríkja sem lýtur ekki neinum lýðræðislegum ramma. NATO gerir það þó, þar ríkir neitunarvald. Við höfum ekki beitt því neitunarvaldi, þess vegna fer alltaf svolítið fyrir brjóstið á mér þegar menn eru að slá sér á brjóst og þykjast vera herlaus þjóð — við erum það náttúrlega — en svo óskaplega friðelskandi, en taka síðan þátt í öllum herleiðöngrunum. Við erum náttúrlega ekkert friðelskandi þegar til kastanna kemur. Styður ekki Ísland drónaárásirnar í Austurlöndum, Jemen, Pakistan, Írak, gerum við það ekki? Eru einhverjar athugasemdir við það? Í frumvarpinu er mikið af fallegum orðum um frið, mannhelgi og reisn o.s.frv. Það má ekki koma nálægt neinum sem er svo óhreinn að hann sé að framleiða vopn til að drepa fólk. En hvað erum við að gera við okkar bandamenn? Ég bara spyr. Er kannski ráð að við lítum í spegil og horfum á það hverju við erum ábyrg fyrir núna þessa dagana, þessar stundirnar, áður en við berjum okkur mikið á brjóst?

Í fjórða lagi er kveðið á um að heimilað verði að takmarka viðskipti með svokallaða hrádemanta frá átakasvæðum, eða blóðdemanta, svo og að viðskipti með tól sem nota má til pyndinga eða við framkvæmd dauðarefsingar. Þetta er að sjálfsögðu hið besta mál.

Síðan í fimmta lagi að takmarka megi fjárfestingar í fyrirtækjum sem veita þjónustu eða framleiða hluti sem mætti nota í hernaðarlegum tilgangi.

Í fyrsta lagi finnst mér margt orka tvímælis í þessu, og fyrst og fremst er það samhengið sem við höfum sett okkur í, samkrullið með NATO-ríkjunum. Ég tel og ég ætti miklu auðveldara með að taka ofan fyrir okkur sjálfum ef við hefðum her á Íslandi. Ef það væri ekki bara þannig að við værum ekki með her en tækjum þátt í að senda annarra þjóða unglinga og ungt fólk í stríð, og ef við samþykktum ekki beint og óbeint hernaðarofbeldi úti um heiminn ætti ég miklu auðveldara með þetta. En allt þetta orðagjálfur um mannhelgi og mannlega reisn o.s.frv. finnst mér fara illa í þjóð sem á hlutdeild í þessu hernaðarbandalagi.

Þess vegna langar mig til, hæstv. forseti, að minna á þingmál sem liggur hér fyrir óafgreitt, sem er um þjóðaratkvæðagreiðslu um veru okkar í NATO. Ég er fyrsti flutningsmaður þess frumvarps en allur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs stendur að málinu. Og vegna þess að þjóðaratkvæðagreiðslur eru nokkuð mikið í tísku núna þessa dagana — ég er almennt fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum, það á að leysa erfið deilumál með því að skjóta þeim fyrir þjóðina, og eitthvað sem varðar okkar hagsmuni og kannski líka mannlega reisn sem er tíunduð svo rækilega í þessu frumvarpi, að við getum þá skilgreint það með atkvæði okkar hvert við viljum stefna í þeim efnum — legg ég til að þingið og utanríkismálanefnd afgreiði það mál frá sér og okkur gefist tækifæri til að ræða það frekar í þingsal. Ég held að það væri til bóta.

Hæstv. forseti. Það sem ég staldra helst við, og væri fróðlegt að fá skýringar hæstv. utanríkisráðherra á, varðar þessa útvíkkun þegar kemur að þvingunaraðgerðum. Hvað er það nákvæmlega sem menn eiga við með því? Eru menn að hugsa um aðgerðir sem kenndar hafa verið við „Coalition of the Willing“, bandalag hinna viljugu þjóða? Alla vegar er sú hætta fyrir hendi. Ég tel að ákvarðanir stjórnvalda, og þá í samráði við utanríkismálanefnd, eigi að vera mjög takmarkaðar, ákvörðunarvald, heimildir til ákvarðana eiga að vera mjög takmarkaðar. Ég sætti mig við Sameinuðu þjóðirnar, út úr NATO vil ég náttúrlega fara, en þar er þó lýðræðislegur rammi þar sem neitunarvald gildir. En í hinu tilvikinu, þegar við erum komin út í óformlegt samstarf við stórveldi eða herveldi án nokkurs slíks ramma þá finnst mér að málið hljóti alltaf að liggja hjá Alþingi að taka ákvörðun um.