144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[12:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel ekki að verið sé að heimila ákvarðanir varðandi það til dæmis þegar Íslendingar lentu á þessum blessaða lista yfir stuðningslönd við innrásina í Írak, ekki sé verið að heimila að ríkisstjórn geti tekið slíkar ákvarðanir. Mér finnst býsna erfitt, þó að það sé rétt hjá hv. þingmanni, að rökin fyrir því að þetta var gert voru byggð á öryggishagsmunum, að þarna væru efnavopn og mögulega kjarnorkuvopn eða hvað þetta var allt saman. Hér er um að ræða beitingu þvingunaraðgerða, að grípa til slíkra aðgerða. Mér finnst býsna langt seilst að líkja þessu saman við það sem gerðist í Írak, en ég tek undir með hv. þingmanni að ef hætta er á misskilningi í því er nauðsynlegt að utanríkismálanefnd fari vel ofan í það og komi ef til vill með breytingar á frumvarpinu sem skýri þetta enn þá betur.

Hugmyndin í þessu er fyrst og fremst að við getum tekið þær ákvarðanir sem við teljum þurfa til að taka þátt í þvingunaraðgerðum ef ríkjahópar taka sig til, ef alþjóðasamtök, hluti þeirra eða einhverjir slíkir, taka sig til. Það er að sjálfsögðu alltaf háð mati hvenær við eigum að taka þátt í slíku, rétt eins og í dag. Við tökum í dag þátt í þvingunaraðgerðum gagnvart Rússlandi vegna innrásar þess í Úkraínu. Það er samkvæmt heimild í EES-samningnum. Okkur ber engin skylda til að gera þetta, okkur er það í sjálfsvald sett. Við teljum hins vegar mikilvægt að taka þátt í því vegna þess að með því sýnum við að við erum algjörlega ósammála því að þarna sé farið á svig við alþjóðasáttmála og alþjóðalög brotin.