144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir með forseta sem hér talaði á undan um nauðsyn þess að við högum störfum okkar með sóma nú á síðustu lotu þingsins. Það kemur mér hins vegar stórkostlega á óvart að sjá hvorki hæstv. forsætisráðherra né hæstv. fjármálaráðherra hér til svara í fyrsta fyrirspurnatíma eftir tveggja vikna þinghlé, þinghlé þar sem verkföll hafa hafist úti í samfélaginu. Verkfall BHM stendur yfir. Við lesum fréttir um að þar ríki ástand sem geti ekki talist öruggt fyrir sjúklinga og hæstv. forsætisráðherra nýtir flokksþing Framsóknarflokksins til að tilkynna okkur hinum, hvort sem er öðrum þingmönnum eða almenningi í landinu, að ætlunin sé að aflétta höftum fyrir þinglok. Til þess höfum við hvað? 18 þingfundadaga! Svo kemur virðulegur forseti þingsins og segir: En það er samt mikilvægt að staðið verði við starfsáætlun.

Ég hefði gjarnan viljað fá tækifæri til þess, herra forseti, að spyrja bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra spjörunum úr hér á fyrsta degi eftir tveggja vikna þinghlé í ljósi þeirra upplýsinga sem okkur (Forseti hringir.) hafa borist í gegnum landsfund Framsóknarflokksins og í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem er uppi á vinnumarkaði. Mér finnst ekki (Forseti hringir.) mikill bragur á þessu, herra forseti.