144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir að bjóða okkur velkomin úr páskaleyfi en hlýt að spyrja hvort formenn stjórnarflokkanna séu enn í páskafríi. Eða hvað veldur því að þeir eru ekki hér á þingfundi til að svara óundirbúnum fyrirspurnum? Þeir eiga auðvitað að vera tilbúnir til þess tvisvar sinnum í viku og sér í lagi að loknu löngu hléi og að loknum þeim stóru yfirlýsingum sem gefnar voru á föstudaginn.

Ég þakka forseta fyrir að hafa reynt að fá þá til fundarins til að svara fyrirspurnum. Ég veit ekki af hverju þeir treysta sér ekki til að svara þeim spurningum sem þeir augljóslega þurfa að svara. En ég bið forseta um að haga dagskrá þingsins á þann veg að annar óundirbúinn fyrirspurnafundur verði í upphafi fundar á morgun, þriðjudag, og þeim verði gefinn kostur á að svara þeim brýnu spurningum sem þeir þurfa að svara í upphafi fundar á morgun. Það er hverjum manni ljóst að með verkföll í landinu, með yfirlýsingar um afnám gjaldeyrishafta og með margar samþykktir (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins, um að þingmál ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) eigi ekki að ná fram að ganga, er óhjákvæmilegt að (Forseti hringir.) þessir leiðtogar ríkisstjórnarinnar séu hér til svara eða að þeir svari því alla vega af hverju þeir treysta sér ekki til að svara.