144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:13]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir þetta. Það er mjög bagalegt að annar hvor forustumanna ríkisstjórnarinnar sé ekki hér til að svara mjög aðkallandi spurningum eftir tveggja vikna leyfi. Það hafa verið gefnar alls konar yfirlýsingar úti í bæ, sem þarf að fá skýringar á.

Ég vil líka gera annað að umtalsefni. Eins og hæstv. forseti fór ágætlega yfir í ávarpi sínu áðan er brýnt að halda starfsáætlun og það er ákveðin meginregla sem við reynum að hafa í huga í þingstörfum, að það sé starfsáætlun. Nú hefur ríkisstjórnin haft alveg heilt þing til að leggja fram þingmál, brýn mál, stefnumál, og ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin hafi ekki nýtt það sem skyldi og það hafa frekar fá mál — kannski blessunarlega en stundum bagalega — komið frá ríkisstjórninni. En nú berast yfirlýsingar frá ráðherrum í ríkisstjórninni að mál séu væntanleg og sumarþing þurfi og þar fram eftir götunum. Ég er ekkert á móti sumarþingi ef brýn þörf er á en hins vegar verður hæstv. forseti (Forseti hringir.) að brýna fyrir forsætisráðherra og öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni (Forseti hringir.) að þeim beri að virða starfsáætlun. Frestur til að leggja fram (Forseti hringir.) ný þingmál er runninn út og við erum ekki bara á einhverri bakvakt í þinginu að bíða eftir frumvörpum sem eru lögð fram þegar ráðherrum þóknast.