144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að ekki þarf mikla stjórnmálafræði til að átta sig á því að annað er ótækt en að það sé eitt af fyrstu verkefnum þessarar viku að þingmenn eigi þess kost að eiga orðastað við forustu ríkisstjórnarinnar. Það er ekki eins og við séum að koma hér til starfa á venjulegum mánudegi. Við höfum ekki verið í þinginu í tvær heilar vikur og hæstv. forsætisráðherra hefur verið með miklar yfirlýsingar á þingi framsóknarmanna, telur við hæfi að gefa stórar yfirlýsingar þar en skilar svo auðum stól hér. Það er gagnvart Alþingi sem hæstv. ríkisstjórn á að svara og það er gagnvart Alþingi sem hæstv. forsætisráðherra á að vera tilbúinn að svara fyrir ákvarðanir sínar en ekki bara á eigin þingum úti í bæ. Ég tek því undir þá tillögu sem kom fram hér áðan að rétt sé að efna til sérstaks óundirbúins fyrirspurnatíma utan dagskrár á morgun.