144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við komum hér upp hvert á fætur öðru og kvörtum undan fjarveru hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er í miklu samræmi við það sem virðist vera virðingarleysi sérstaklega hæstv. forsætisráðherra fyrir þinginu. Þegar hæstv. forsætisráðherra kemur með yfirlýsingar um eitthvað jafn mikilvægt og gjaldeyrishöft þá hefði maður haldið að hann mundi vilja að hið háa Alþingi gæti rætt það við hann, spurt hann spurninga, fengið eitthvað á hreint, vegna þess að það er margra spurninga að spyrja. Ég gæti sagt að það ylli mér venjulega vonbrigðum að sjá ekki hæstv. forsætisráðherra hér en þetta er orðin venjan, maður er orðinn vanur þessu virðingarleysi, þessu skeytingarleysi gagnvart Alþingi og gagnvart lýðræðinu. Þetta er til skammar. Ég velti fyrir mér, ef ég á að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, hvernig mönnum dettur í hug að þeir muni klára þetta þing samkvæmt starfsáætlun. Ég sé ekki fram á að það gerist, með fullri virðingu.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.