144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við hljótum að gera athugasemdir við þessa almennu sniðgöngu forsætisráðherra gagnvart þinginu. Að koma eftir páskaleyfi og skila auðu sæti er ekki boðlegt og við hljótum öll að mótmæla því, sérstaklega þegar menn hafa staðið í ræðustólum úti í bæ og verið með stórkarlalegar yfirlýsingar um aðgerðir í einhverjum af stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar og leggja síðan ekki í það að koma til þingsins og svara fyrirspurnum um það. Það er ekki í boði, virðulegi forseti.

Við hljótum að fara fram á að á morgun verði aukafyrirspurnatími eða skýrslugjöf af hálfu hæstv. forsætisráðherra um hvað hann átti við í ræðu sinni um það hvernig farið verður í afnám hafta. Það eina sem ég get lesið út úr yfirlýsingum hans á síðastliðnum tveimur árum er að hann hefur eytt þeim árum í að reyna að finna ný nöfn á aðgerðir sem unnið var með í tíð fráfarandi ríkisstjórnar. Það er það eina sem ég hef séð. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekkert annað gert til að afnema höft í landinu en að reyna að skapa ófrið og slá sjálfan sig til riddara með innstæðulausum frösum. (Forseti hringir.) Hann þarf að koma hingað í þingið og svara fyrir þetta.