144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá félögum mínum um meint virðingarleysi forsætisráðherra gagnvart þinginu. Við erum með munnlegar fyrirspurnir hérna á eftir en það hefur gengið mjög treglega að fá forsætisráðherra til að mæta hingað á mánudögum til að taka þátt í þessum dagskrárlið þingsins. Mér finnst það mjög bagalegt og til vansa. Mér finnst furðulegt að forsætisráðherra geti ekki komið hingað og svarað fyrir það sem átti sér stað á landsfundi framsóknarmanna. Ég hef miklar áhyggjur af því að störf þingsins muni riðlast verulega út af málum sem koma frá Framsóknarflokknum, m.a. frá hv. þm. og ráðherra Eygló Harðardóttur og forsætisráðherra. Ég hef líka áhyggjur og mundi vilja fara ítarlega yfir það með ráðherra og óska eftir og tek undir að hér verði haldinn sérstakur fundur á morgun með þeim dagskrárlið sem við erum að fara í hér á eftir.