144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég óska ríkisstjórninni velfarnaðar á því ferðalagi sem hún hefur nú hafið og vonandi leiðir til farsæls afnáms á gjaldeyrishöftum. Ég vildi gjarnan geta stutt það og mun gera það ef um er að ræða útfærslu sem ég og mitt fólk getur sætt sig við, en til þess þarf ég að skilja það. Ég skil ekki enn þá hvað í þessu felst. Nú eru liðnir þrír sólarhringar frá því að yfirlýsing forsætisráðherra kom fram á flokksþingi Framsóknar. Enn hefur ekkert heyrst í fjármálaráðherra, enn hefur aðeins einn sjálfstæðisþingmaður talað um málið og hann hefur fundið því flest til foráttu.

Það hefur komið fram að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Frosti Sigurjónsson, vissi ekkert um málið og hafði ekki verið kynnt það. Þess vegna spyr ég hæstv. forseta hvort hann muni ekki tryggja að samstundis og þeir fóstbræður koma í leitirnar, hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra, verði þeir látnir gefa hér munnlega skýrslu um stöðu þessa máls.