144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en auðvitað er það vandamál að hæstv. forsætisráðherra er ekki til svara þegar hann er búinn að kynna á sínu eigin landsþingi að nú liggi fyrir ákvörðun um hvernig eigi að losa höftin, heldur því svo fram að allir séu upplýstir þó að það hafi nú komið fram að fulltrúar hans eigin flokks og Sjálfstæðisflokksins í svokallaðri samráðsnefnd eru ekki upplýstir, ekki frekar en fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, enda hefur allt það sem hefur verið kynnt þar verið einhvers konar hugmyndir, engar útfærslur legið fyrir þannig að það er ekki í lagi að hæstv. forsætisráðherra leyfi sér að fara með slíkar rangfærslur og mæta svo ekki í þingsal. Eins og hér hefur verið bent á er þetta því miður ekki einstakt. Hæstv. forsætisráðherra hefur mætt í eina sérstaka umræðu í allan vetur í þingsal.

Hæstv. forseti fór yfir það áðan að hann hefði óskað eftir því við formenn stjórnarflokkanna að þeir væru hér í dag. Þeir eru ekki hér. Varaformenn þessara flokka eru ekki hér. Hvernig eigum við þingmenn (Forseti hringir.) að geta sinnt okkar störfum ef menn eru ekki hér til svara? Við getum það ekki. Þetta er ekki í lagi.