144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er ósatt að við séum alltaf ósammála í þessum sal eins og sumir halda samt. Við erum oft sammála og ég held að við séum öll sammála um það hér að brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar og brýnasta verkefnið í stjórnmálunum í dag sé að losa gjaldeyrishöftin. Þess vegna hlýtur það að vera mjög einkennilegt og við að vera svolítið rugluð yfir forgangsröðun, sem er nú tískuorð, forustumanna þessarar ríkisstjórnar. Hæstv. forsætisráðherra segir á föstudaginn að lausnin sé komin og það þurfi bara að keyra þetta í gegn fyrir þinglok. Við höfum 18 daga til að ræða þetta og hvorugur þeirra mætir hér í dag. Þetta er slíkur dónaskapur við Alþingi að ég held að það sé fáheyrt. Það væri fróðlegt að vita hvar hæstv. forsætisráðherra er og það væri fróðlegt að vita hvaða fundur með (Forseti hringir.) einhverju fólki utan þings er meira áríðandi en að gera þinginu grein fyrir þessum tillögum í stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar í dag.