144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:34]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir hamingjuóskir með flokksþing Framsóknarflokksins og fagna þeim áhuga sem hv. þingmenn sýna þeirri samkomu sem var virkilega góð og uppbyggileg. Þar áttum við góða helgi og væri gaman að geta rætt það betur við ykkur hér en þetta er líklega ekki vettvangur til þess. Við erum þó klárlega tilbúin til þess.

Ég vil upplýsa að forsætisráðherra er að vinna fyrir okkur úti í bæ, eins og þið kallið það, er á fundi um gjaldeyrishöftin. Ég vil jafnframt minna ykkur á að hann mun sitja hér fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnatíma á fimmtudaginn. Ég vona þá að við verðum hér sem flest og hlustum á gagnlegar og góðar umræður.