144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa gert sitt til að reyna að fá hæstvirta ráðherra hingað til fundar. Hann á þakkir skildar fyrir það en ég varpaði til hæstv. forseta fyrirspurn þegar ég hélt stutta ræðu áðan. Ég spurði hæstv. forseta hvort ekki mætti gera ráð fyrir því, miðað við mikilvægi málsins, að hann mundi gera reka að því að þeir tveir hæstv. ráðherrar, a.m.k. annar þeirra, hæstv. forsætisráðherra eða fjármálaráðherra eftir atvikum, flyttu þinginu munnlega skýrslu um stöðu þessa máls. Mér þætti vænt um að hæstv. forseti mundi svara þeirri spurningu.

Í annan stað langar mig til að spyrja hæstv. forseta, af því að ég tek undir frómar óskir hans í ávarpi sínu við upphaf fundar um að vonandi takist okkur að ljúka þeim málum sem þarf að ljúka og það í tíma og á áætlun þingsins: Getur hæstv. forseti upplýst hvort hæstv. forsætisráðherra hafi gert honum viðvart um að von væri á miklum frumvörpum sem þurfi að koma í gegnum þetta þing áður en það kveður og heldur inn í sumarið?