144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef orðið þess áskynja í gegnum árin að almenningur skilur stundum ekki hvað við ræðum hér í þinginu. Á þessum dögum höfum við fengið gríðarlega stór mál inn í umræðuna, við erum með kjaramálin öll upp í loft, við erum núna með yfirlýsingar um áætlanir í sambandi við afnám gjaldeyrishafta — en það er ekki rætt í þinginu. Menn túlka þetta sem áhugaleysi þingmanna um að ræða þetta eða hag einstaklinga í samfélaginu. Fólk áttar sig ekki á því að hér eru afar takmarkaðir möguleikar á að ræða slík mál. Núna þegar við erum á fimm ára afmæli skýrslu rannsóknarnefndarinnar þar sem rætt var sérstaklega að styrkja þyrfti stöðu Alþingis og minnka ráðherraræðið verðum við vitni að því að vikulega koma frumvörp frá núverandi hæstv. ríkisstjórn þar sem verið er að minnka völd Alþingis. Það er markvisst komið í veg fyrir að Alþingi fái upplýsingar eða umræðu um stór mál og þar með er verið að hindra tækifæri okkar til þess að koma málum á dagskrá fyrir almenning í þessu landi. (Forseti hringir.) Við erum nauðbeygð til þess að ræða fundarstjórn forseta til að koma slíkum málum á framfæri. Þessu þarf (Forseti hringir.) að breyta og við verðum öll að standa að því.