144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ein höfuðástæða þess að mönnum liggur hér á að tala við hæstv. forsætisráðherra er orð hans um gjaldeyrishöftin, eitt stærsta hagsmunamál Íslands. Þá heyrum við hér þær fréttir að hæstv. ráðherra sé „úti í bæ“, eins og það er orðað, að ræða einmitt gjaldeyrishöftin við einhvern annan hóp manna en þann sem situr á hinu háa Alþingi. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. forsætisráðherra líti kannski svo á að Alþingi sé ekki með mikilvægari stofnunum til að ræða það mál, sérstaklega með hliðsjón af því að hér eru samráðsnefndir í gangi og ýmislegt annað sem maður hefði haldið að skipti máli. Vissi hæstv. forsætisráðherra ekki að það yrði þingfundur kl. 15 í dag? Vissi hann ekki að það yrði óundirbúinn fyrirspurnatími? Taldi hann að þingmenn hér langaði ekki að ræða málið? Eða var honum kannski bara sama?