144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

verndun Torfajökulssvæðis og fleiri svæða.

[15:59]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í bréfi sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra skrifaði sveitarfélögum á Suðurlandi í byrjun þessa árs, það eru sveitarfélögin Rangárþing ytra, Rangárþing eystra og Skaftárhreppur, sem öll eiga aðkomu að Torfajökulssvæðinu, þá undirstrikar ráðherra mikilvægi þess að Torfajökulssvæðinu verði haldið ósnortnu og því verði sem minnst raskað svo umsóknarferli fyrir svæðið á heimsminjaskrá UNESCO verði ekki sett í uppnám. Í bréfinu segir, með leyfi forseta:

„Þess þarf því að gæta með hinu nýja skipulagi að ekki sé brotið nýtt land undir mannvirki og þjónustukjarna heldur unnið áfram með þau svæði sem þegar hefur verið raskað, svo sem Landmannalaugar. Að eiga stað eða minjar á heimsminjaskránni hefur mikla þýðingu fyrir ferðamennsku á þeim svæðum þar sem minjar á heimsvísu eru og reynsla frá löndunum í kringum okkur sýni að heimamenn og sveitarfélög sækist mjög eftir því að eignast slíka staði. Miklar kröfur eru gerðar til þeirra svæða sem ríki vilja fá inn á heimsminjaskrána.“

Á sama tíma og ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra í bréfinu sem dagsett er þann 7. janúar vil ég spyrja eftirfarandi spurninga:

Er þetta birtingarmynd á stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart óröskuðum svæðum?

Eiga þessi sömu rök ekki jafnframt við um fjölmörg önnur svæði eins og á miðhálendi Íslands, á Sprengisandi eða í Þjórsárverum svo dæmi séu tekin af svæðum sem sumir fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa ásælst mjög á undanförnum missirum og árum?