144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

leiðrétting kjara eldri borgara.

[16:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Lífeyrir aldraðra og öryrkja hefur iðulega verið frystur á sama tíma og lægstu laun hafa hækkað. Þetta er kallað kjaragliðnun. Mig langar að spyrja ráðherra hvort honum finnist krafa aldraðra, margra hverra, um að sú kjaragliðnun verði leiðrétt strax fyrir tímabilið 2009–2013, réttmæt.

Eldri borgarar þessa lands — sem telja þúsundir og treysta margir hverjir nær eingöngu á laun eða bætur frá Tryggingastofnun — eru einn örfárra hópa sem ekki nýtur samningsréttar. Þeir koma þar með ekki að borðinu þegar aðrir launþegar landsins ná fram sínum launabótum eins og við stöndum frammi fyrir í dag, þeir hafa ekki þennan samningsrétt. Hvað geta þeir sagt? Þeir geta ekki sagt: Við förum í verkfall. Þeir geta ekki sagt: Eigum við að hætta að vera gamlir? Við erum hættir, farnir í verkfall. Það gengur ekki.

Er ráðherrann meðvitaður um þessa réttarstöðu? Hefur hún verið að hugsa það? Hefur hún hugsað einhverjar leiðir sem hægt væri að fara til að eldri borgarar og öryrkjar og fleiri hópar, sem hafa ekki þennan samningsrétt, geti komið að borðinu þegar verið er að ræða um laun þeirra og stöðu, við sáum í fjárlögunum, það var byrjað að fara í 3,5% en lækkað í meðferð þingsins niður í 3%.

Ég átti góðan fundi með Félagi eldri borgara í Reykjavík nýlega og í Danmörku eru það frjáls félagasamtök, regnhlífarsamtök eins og ASÍ þess lands, sem tryggir að þau geti komið aðeins að borðinu. Er það eitthvað sem ráðherra getur gert með reglugerð eða hvað? Eru einhver verkfæri sem ráðherra hefur og það jafnvel löggjöf til að aðstoða eldri borgara og aðra, sem þiggja bætur frá ríkinu, til að koma betur að borðinu hvað varðar þeirra kjaramál? Og hvað finnst ráðherranum um þetta? Finnst honum það réttmæt krafa að leiðrétta þessa kjaragliðnun?