144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

ný heildarlög um LÍN.

[16:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafa verið ofarlega á baugi í umræðum í vetur, bæði hvað varðar ábyrgðarmenn og þær skuldir sem hafa verið að falla á ábyrgðarmenn, en líka staða námsmanna almennt. Það er ekki langt síðan við þingmenn fengum bréf frá hópi námsmanna, læknanema, sem kvörtuðu undan breytingum á úthlutunarreglum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. En kannski hefur sú umræða ekki náð nægilega miklu flugi hér á þinginu því að í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er boðað að fyrir 26. mars eigi að leggja fram ný heildarlög um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nú er 26. mars liðinn fyrir allnokkru og ekkert bólar á frumvarpi til nýrra heildarlaga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Gildandi lög eru frá árinu 1991 og því er löngu orðið tímabært að ráðast í heildarendurskoðun. Raunar er það svo að ég lagði sjálf fram frumvarp til laga um heildarendurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna þingveturinn 2012–2013 þar sem m.a. voru lagðar til breytingar hvað varðar eldri ábyrgðir, og eins voru lagðar til breytingar á nýjum lánum þannig að hluti höfuðstóls námslána mundi breytast í styrk ef námsmenn uppfylltu ákveðnar kröfur um námsframvindu.

Því máli var raunar bara ágætlega tekið hér í þinginu af þingmönnum ólíkra flokka, þannig að ég átti von á því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra mundi taka upp þær hugmyndir sem voru unnar í breiðu samráði bæði við námsmannahreyfinguna en líka við aðila vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfinguna og aðra aðila sem þar standa að málum. Við fengum ekki að sjá neitt slíkt frumvarp á síðasta þingi og nú spyr ég hæstv. ráðherra: Eigum við von á heildarendurskoðun um Lánasjóð íslenskra námsmanna á þessu þingi? Hvað tefur að það komi fram? Nú erum við komin fram yfir síðasta frest. Málið er stórt og umfangsmikið og allir eru sammála um að heildarenduskoðun sé tímabær. Hvað tefur þetta mál?