144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

ný heildarlög um LÍN.

[16:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Hv. þingmaður ræddi í fyrirspurn sinni aðdraganda þess að hér var lagt fram frumvarp um lánasjóðinn og taldi upp þá aðila sem hafði verið haft samráð við. Það var einn aðili sem ekki var talinn upp í þessari annars ágætu upptalningu, sem var fjármálaráðuneytið þá, vegna þess að það var mikill munur á því mati sem lá fyrir frá hæstv. þáverandi menntamálaráðherra á því hver kostnaðurinn yrði af þessu frumvarpi og síðan mati fjármálaráðuneytisins.

Í þeirri vinnu sem nú stendur yfir er reynt að gæta þess mjög vel að horfa til þess kostnaðar sem fallið getur til af þeim breytingum sem staðið er að. Ég tel það skipta verulegu máli, sérstaklega í ljósi þess að sú þróun sem verið hefur á Lánasjóði íslenskra námsmanna að undanförnu bendir til þess að á undanförnum árum hafi staða sjóðsins og sú útlánahætta sem hann stendur frammi fyrir verið að vaxa. Það kemur fram í úttektum sem gerðar hafa verið og er nauðsynlegt að horfa mjög til þess. Því miður var ekki gripið inn í það á sínum tíma en núverandi stjórn hefur með breytingum á útlánareglu og öðrum verið að gera það sem hægt er að gera innan þess ramma til þess að styrkja og styðja sjóðinn. En það er alveg nauðsynlegt, og um það erum við hv. þingmaður sammála, að fram komi löggjöf um lánasjóðinn en hún verður að vera unnin þannig að sæmilegur samhljómur sé á milli fjármálaráðuneytisins annars vegar og menntamálaráðuneytisins hins vegar um þann kostnað sem af slíkri löggjöf leiðir.