144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

ný heildarlög um LÍN.

[16:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er lítið mál að leggja fram frumvörp ef menn hafa engar áhyggjur af því hver kostnaðurinn er og fara fram hjá fjármálaráðuneytinu með þeim hætti að þegar frumvörpin koma til umræðu á þingi (Gripið fram í.) standa þau eins og frumvarp hv. þingmanns, þáverandi hæstv. ráðherra, kom til umræðu. Þá var það ekki tækt til umræðu vegna þess að þá lá fyrir að mat fjármálaráðuneytisins á þann kostnað sem fylgdi því var allt annað en kostnaðurinn (Gripið fram í.) sem hv. þingmaður taldi að mundi hljótast af frumvarpinu.

Þegar er verið að vinna svona mál er betra að menn geri sér grein fyrir kostnaðinum. En það verður líka að horfa til þess að staða sjóðsins hefur verið að versna. Það verður að segjast eins og er að það þarf auðvitað að leggja mat á þær ákvarðanir sem teknar voru í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem voru til þess fallnar að grafa undan greiðslugetu sjóðsins, sem varð til þess að auka þörfina á framlagi frá ríkissjóði í sjóðinn. (Gripið fram í.) Það þarf auðvitað að leggja mat á það og það hefur verið gert nú þegar að hluta.

Aðalatriðið er að þegar menn koma hér með frumvörp inn í þingið þarf auðvitað að tryggja að (Forseti hringir.) samhengi sé á milli þess sem hæstv. ráðherra segir að það kosti og síðan þess sem fjármálaráðuneytið segir að það kosti. (Forseti hringir.) Hitt er auðvelt, að koma fram með frumvarp þar sem þetta vantar. (Gripið fram í.)