144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

svör við fyrirspurn.

[16:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sé hér til staðar. Mig langar nefnilega að beina því til hæstv. forseta að hann hlutist til um að það berist svör frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðuneyti varðandi mál sem ég hef ítrekað spurst fyrir um, fyrst í tölvupóstum í september sl., aftur með skriflegri fyrirspurn í desember sl., um Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og þau áform sem þar eru uppi. Ekkert svar hefur borist og það er ekki lengur á lista hjá hæstv. forseta að skýra út hvar málið stendur.

Nú er búið að setja í gang starfshóp um stofnun sjálfseignarstofnunar um alla háskólana í Norðvesturkjördæmi, Bifröst, Hvanneyri og Hólaskóla. Ég hef verið að leita að því á neti ráðuneytisins til að sjá hvernig skipunin er á þeim hópi eða hvaða forsendur honum voru gefnar. Það liggur ekkert opinberlega fyrir. Samt er búið að halda hér ráðstefnur þar sem verið er að leggja af stað í slíka vinnu og það hafa borist fréttir af þessu í fjölmiðlum. Þetta er enn eitt dæmið um lítilsvirðingu hæstvirtra ráðherra við hv. (Forseti hringir.) Alþingi Íslendinga. Ég óska eftir því sérstaklega við hæstv. forseta að hann hlutist til um að þessi svör berist.