144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

svör við fyrirspurn.

[16:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, það er ótækt að þessi svör hafi ekki borist. Ég mun gera gangskör að því að hv. þingmaður fái þau svör sem honum ber. Hv. þingmaður sagði réttilega frá því að núna er í gangi sú vinna sem hann benti á. Ég get strax upplýst að þeir sem þar koma að eru fulltrúar frá háskólunum sem um er að ræða og eigendur þeirra og sveitarstjórnarfólkið þar sem þessir háskólar eru staðsettir, ásamt fulltrúum frá mínu ráðuneyti. Þar var leitast við að hafa sem breiðastan hóp þeirra sem hafa hagsmuni af þessu máli.

Þegar kemur að því að breyta þarf lögum, ef til þess kemur að sameina þessa háskóla eða gera einhverjar breytingar, mun það koma inn í þingið með frumvarpi sem við getum rætt hér kosti á og galla, hvort menn vilja fara þá leið eða ekki, þ.e. gera þær nauðsynlegu lagabreytingar sem þarf til þess.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að það er enginn bragur á því að hv. þingmanni hafi ekki borist þessi svör og ég mun gera gangskör að því strax að þau berist.