144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjárveitingar til háskóla.

519. mál
[16:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég var að bíða eftir að hæstv. ráðherra mundi svara spurningu hv. þingmanns en heyrði ekki svarið. Ég ætla því að ítreka spurninguna.

Þetta snýst um það að þegar verið var að deila þessum peningum út var miðað við áætlaðan nemendafjölda árið 2014. Raunnemendafjöldi árið 2014 í Háskólanum á Akureyri var mun meiri en áætlunin gerði ráð fyrir. Spurningin er því þessi: Verður Háskólanum á Akureyri bættur sá mismunur sem var á áætluninni og rauntölunum fyrir árið 2014? Þetta er einföld spurning.

Annað sem mig langar aðeins að koma inn á, á þeim stutta tíma sem hér gefst, er að í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að ekki væri greitt fyrir umframnemendur heldur hærri fjárframlög fyrir hvert nemendaígildi. Varla var blekið þornað fyrr en menn voru hættir við það ákvæði og farnir að greiða fyrir umframnemendaígildi á umliðnum árum. Þetta er mjög (Forseti hringir.) óskýr stefna.

Nú hljóta háskólar að spyrja sig: Eigum við (Forseti hringir.) að taka umframnemendur og treysta á að við fáum þetta bætt síðar, eða er markmiðið að hækka framlög á nemendaígildi?