144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjárveitingar til háskóla.

519. mál
[16:46]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún er mjög þörf, þ.e. að ræða einmitt stöðu landsbyggðarháskólanna, orð og efndir varðandi þróunina á landsbyggðinni.

Síðastliðinn föstudag átti ég kost á því að vera við umræðu um skýrslu frá Vinnumálastofnun um þróun á vinnumarkaði á Íslandi næstu tvö árin, frá 2015 til 2017. Þar kom fram að efling ferðaþjónustu hefur nær eingöngu ráðið, eða 96%, fjölgun fólks á vinnumarkaði. Þar kom líka fram að efla þyrfti landsbyggðina í umsýslu og móttöku á ferðamönnum og sérstaklega kom fram að auka þyrfti menntun úti á landsbyggðinni fyrir þá aðila sem vinna í ferðaþjónustu.

Það má segja að mottóið í umræðunni hafi verið menntun og gæði. Þess vegna er mjög mikilvægt að halda því til haga, þegar við ræðum hvort sem er skólana í Norðvesturkjördæmi eða Háskólann á Akureyri, hversu gríðarlega miklu máli það skiptir (Forseti hringir.) að við gætum þess að menntunin verði úti á landi og að til þess fáist nægilegt fjármagn.