144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjárveitingar til háskóla.

519. mál
[16:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. menntamálaráðherra er yfirleitt allra manna fremstur í því að koma með skýr svör. Hér er hann spurður mjög einfaldra spurninga sem hann hefði í sjálfu sér getað svarað með einu orði. Þess í stað kýs hæstv. ráðherra að fara með langan fyrirlestur, las hann mjög hratt og fyrir venjulegt fólk var mjög erfitt að komast að niðurstöðu um hvað hæstv. ráðherra var að segja. Þess vegna vil ég koma með þá frómu ósk að hæstv. ráðherra beiti sínum analítísku hæfileikum til að eima sjálfan sig niður í kannski tvær setningar í síðara svari.

Að öðru leyti ann ég háskólum Reykjavíkur og Íslands hverrar krónu sem þeir fá til sín. En ég verð hins vegar að taka undir það, og sú skoðun mín hefur komið fram áður, að mér fannst mjög harkalega farið með háskólann fyrir norðan við afgreiðslu síðustu fjárlaga. Sér í lagi þegar horft er til þess að sá háskóli fór í einu og öllu eftir því sem fyrir hann var lagt og þar að auki verð ég að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að menn þurfa auðvitað að (Forseti hringir.) hafa forgangsröð á hreinu. Og að því er varðar landsbyggðina er hann (Forseti hringir.) flaggskipið. Þetta er háskóli, herra forseti, (Forseti hringir.) sem hefur sérstöðu (Forseti hringir.) varðandi til dæmis norðurslóðir, sem ég veit að við hæstv. forseti erum sammála um.