144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

skilyrðing fjárveitingar til háskóla.

522. mál
[17:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég geri ráð fyrir því að hv. alþingismaður sé hér að vísa til skýringa með fjárlögum sem komu fram í nefndaráliti fjárlaganefndar Alþingis við 2. umr. fjárlaganna 2015 samanber umfjöllun sem er á bls. 211 og 212 í prentaðri útgáfu fjárlaganna.

Þar kemur fram, eins og hér hefur verið sagt, að 20 millj. kr. framlag er ætlað til eflingar kennslu í heimskautarétti og 10 millj. kr. yrði ætlað að auðvelda skólanum að fjármagna rannsóknarmissiri fastráðinna kennara. Þá kemur þar fram að hluti Háskólans á Akureyri af 617 millj. kr. hækkuðu framlagi til kennslu í háskólanum sé 10,3 millj. kr. sem komi til viðbótar sérstöku 463 millj. kr. framlagi til styrkingar á rekstrargrundvelli á kennslu í háskólum. Þetta höfum við rætt.

Hv. þingmaður veltir fyrir sér hvort það sé hlutverk fjárlaganefndar og Alþingis að mæla fyrir um áherslur í starfsemi Háskólans á Akureyri í ljósi þess sjálfstæðis sem skólanum er tryggt í lögum um háskóla, samanber lög nr. 63/2006.

Í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að háskóli sé sjálfstæð menntastofnun sem sinni kennslu, rannsóknum, varðveislu þekkingar, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Hlutverk háskóla sé að stuðla að sköpun og miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls. Þá kemur fram í 3. mgr. 2. gr. laganna að háskólar ráði skipulagi starfsemi sinnar og ákveða hvernig henni sé best fyrir komið.

Þetta er svo í lagatextanum.

Nú liggur fyrir aftur á móti niðurstaða Alþingis í fjárlögum sem meiri hluti þingsins hefur samþykkt. Ég ætla ekki að gefa þeirri niðurstöðu neina sérstaka aðra einkunn en bara það sem kemur hér fram. (Gripið fram í.) Nei, ég held að það sé ekki rétt að framkvæmdarvaldið geri það. Þetta er niðurstaða Alþingis.

Seinni spurningin sem hv. þingmaður bar fram var um hvort hæstv. ráðherra hygðist halda til streitu þeim skilyrðum sem þar koma fram. Þá er til þess að taka að það kemur í hlut mennta- og menningarmálaráðherra að fylgja eftir framangreindum skilmálum fjárveitinga til Háskólans á Akureyri. Um það efni er fjallað í 21. gr. háskólalaga. Þar kemur fram í 1. mgr. að ráðherra sé heimilt að gera samninga til þriggja til fimm ára í senn um fjárframlög til kennslu og rannsókna í háskólum sem hlotið hafi viðurkenningu ráðuneytisins. Slíkir samningar eru skilyrði fyrir veitingu fjárframlaga til viðkomandi háskóla.

Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að í háskólasamningi megi kveða á um skilgreiningu á þeirri kennslu- og rannsóknastarfsemi sem ríkissjóður greiðir fyrir, helstu áherslur í starfsemi háskóla og skilmála sem ráðuneytið setur fyrir veitingu fjárframlaga til háskóla.

Um opinbera háskóla eins og Háskólann á Akureyri gilda að auki lög um opinbera háskóla, nr. 82/2008. Í 1. mgr. 24. gr. þeirra laga segir að hver háskóli hafi sjálfstæða fjárveitingu á fjárlögum en að ráðherra geri tillögu við undirbúning fjárlaga um fjárframlög til hvers háskóla til að mæta útgjöldum til kennslu, rannsókna og annarra verkefna. Samkvæmt þessu má gera ráð fyrir að umræddar áherslur fjárlaganefndar og Alþingis muni koma til umræðu við gerð samnings á milli ráðuneytisins og skólans samkvæmt 21. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006.

Ég vil þó segja til viðbótar, virðulegi forseti, að auðvitað finnst mér fara betur á því að við höfum þetta í fastari ramma. Við afgreiðslu fjárlaga eru mörg dæmi um að gerðar eru breytingar á síðustu stundu, það er sjálfsagt að leggja mat á þær og ræða þær, hvort það ráðslag hafi verið heppilegt eða ekki. Þetta liggur bara fyrir, þetta er staðan, og við verðum að vinna á grundvelli fjárlaga.