144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

innritunargjöld öryrkja í háskólum.

547. mál
[17:20]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa mjög góðu fyrirspurn. Ég verð að viðurkenna að ég hafði í sakleysi mínu talið að það væri afsláttur fyrir öryrkja í skólum landsins. Mér fannst mjög áhugavert að heyra þau svör sem hæstv. ráðherra kallaði eftir. Það fyrsta sem maður hugsar er einmitt hvort það eigi ekki að vera jafnræði hvað þetta varðar. Sumir skólar veita afslátt og fá þá væntanlega ekki greitt aukalega fyrir það. Við vitum að Háskólinn á Akureyri er alla vega ekki að fá greitt aukalega fyrir eitt né neitt, þannig að þarna eru tveir skólar að ganga fram með mjög góðu fordæmi. Ég hvet ráðherra til að skoða þetta og mér heyrist vilji hans standa til þess.