144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

innritunargjöld öryrkja í háskólum.

547. mál
[17:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna og hv. fyrirspyrjanda sérstaklega fyrir fyrirspurnina. Ég tek undir með þingmönnum að það er auðvitað umhugsunarefni, í það minnsta hvað varðar opinberu háskólana, hvort einhvers konar regla eigi að vera um það hvernig staðið skuli að þessum málum. Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að kannski er ekki heppilegt að það eigi bara undir því hvernig forustumenn einstakra stofnana á hverjum tíma líta á þessi mál. Ég held að við séum öll sammála um það að menntun er náttúrlega stórkostlegt tækifæri fyrir alla til að leita sér betra lífs og við hljótum auðvitað að vilja koma málum þannig fyrir að þeir sem þurfa að kljást við þær áskoranir sem örorkan felur í sér, við viljum létta þeim róðurinn til að þeir geti nýtt sér þau úrræði sem standa til boða í menntakerfinu.

Ég held að það sé reyndar svo að þegar upp er staðið muni það leiða til sparnaðar fyrir hið opinbera eftir því sem menntunin eykst og þar með möguleikar einstaklinga til að sjá sér farborða og um leið að skapa sér til betra líf. Þar með minnkar kannski um leið sá kostnaður sem fellur til ef menn komast ekki inn á vinnumarkaðinn. Það er því rétt að hafa þetta allt í huga og leggja saman bæði kostnað og líka um leið þann sparnað sem verður þegar fólk kemst aftur á vinnumarkaðinn.

Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns og nefna það aftur að við erum að ræða þessi mál núna innan ráðuneytisins. Það var ágætt að fá þessa áminningu og þess vegna lögðum við einmitt í þá vinnu að senda bréf til háskólanna til að kanna það hvernig þessum málum væri háttað. Niðurstaðan varð sú sem ég birti hér í svari mínu.