144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

nám og náms- og starfsráðgjöf fanga.

553. mál
[17:36]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa góðu fyrirspurn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fangar í öllum fangelsum hafi sama aðgang að námsráðgjöf og námi. Þar er ég nú að hugsa um fangelsið á Akureyri, sem ég þekki hvað best. Síðast þegar ég vissi voru þar, að ég held, átta af ellefu föngum í einhverju námi. Þar er enginn möguleiki á verknámi eða öðru slíku, þetta er allt í fjarnámi.

Við munum að fyrir fjárlagavinnuna var búið að skera niður stöðu námsráðgjafa í Fjölbrautaskólanum á Suðurlandi — hvort því var svo kippt í liðinn, þori ég ekki að segja um. Það eru smápeningar á miðað við það sem við spörum okkur til framtíðar ef við hugsum okkur fangelsi sem betrunarstað en ekki refsingu. Ég heyri að hæstv. ráðherra er sama sinnis, eða mér fannst ég heyra það, þannig að ég hvet hann til dáða í þessu efni.