144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

nám og náms- og starfsráðgjöf fanga.

553. mál
[17:37]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Einn helsti tilgangur og réttlæting fangelsisrefsingar er betrun þess sem brotið hefur af sér. Aukin menntun er besta leiðin til betrunar. Allar rannsóknir sýna að mjög stór hluti þeirra sem dæmdir eru til fangelsisrefsingar hefur litla menntun. Mjög margir þeirra hafa horfið frá námi án þess að ljúka framhaldsskóla og geta jafnvel ekki lesið sér til gagns. Þessi skortur á menntun hefur leitt til þess að margir hafi orðið utanveltu í samfélaginu og finnst það hafa brugðist sér, þeir hafa skert sjálfstraust og hafa því oft leiðst út í misnotkun á áfengi og öðrum vímuefnum og síðan út í afbrot.

Lífsgæði fangans sjálfs og möguleikar hans til að koma undir sig fótunum aukast ekki bara eftir því sem honum er gert kleift og hann fenginn til að mennta sig, heldur einnig allra aðstandenda hans. Áhyggjur af fanganum og framtíð hans spillir lífsgæðum alls þessa fólks. Gott nám og öflug náms- og starfsráðgjöf fyrir fanga er því mjög mikið hagsmunamál, ekki bara fyrir fangana sjálfa heldur samfélagið allt. Við eigum ekki að spara neitt í því efni.