144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

eftirlit með vistráðningu.

523. mál
[17:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem hún kom með hérna og einnig Guðbjarti fyrir að benda réttilega á að Norðurlandaráð hefur verið og er að vinna að bættara kerfi fyrir au pair. Mér finnst mjög alvarlegt að ekki sé sérstakt eftirlit með au pair-ráðningum sem hér eru. Þær sögur sem við fórum að vinna út frá segja að ekki séu nægilega vel vottaðar leiðir inn og út fyrir þá ungu einstaklinga sem er verið að senda á milli landa. Í þróunarlöndunum eru oft menn sem setja upp skrifborð, eru með loforð um að ungar konur geti jafnvel fundið sér framtíðareiginmenn í betra landi, velferðarlandi í Norðurhöfum, og taka umboðslaun fyrir, sem sagt borga flugmiða handa þeim og koma þeim síðan yfir til Norðurlandanna.

Sem betur fer eiga margir eiga góða dvöl í vistráðningu erlendis og eignast þar góðar minningar. Það er gott en ég tel það mjög alvarlegt sem hæstv. ráðherra kom inn á, að matið sé að núverandi kerfi sé ekki nægilega gott. Þá legg ég ríka áherslu úr þessum ræðustól á að þeir sem vinna að endurskoðun á útlendingalögum taki þetta með inn í sína vinnu og skili um leið gagnrýni frá mér á gildandi fyrirkomulag. Eins og ég sagði áðan erum við að tala hérna um unga einstaklinga sem eru kannski að fara út einir í fyrsta skipti, óharðnaða einstaklinga sem lenda síðan í áfalli og vita ekki hvar þeir geta leitað aðstoðar. Ef við ætlum að halda uppi svona kerfi og kalla það ráðahag að ungt fólk geti ferðast svona verðum við líka að hafa gott kerfi sem heldur utan um þessa einstaklinga meðan á dvöl þeirra stendur.