144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

flutningur verkefna til sýslumanna.

548. mál
[18:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þetta mál. Ég ræddi mikið sameiningu sýslumanns- og lögregluembættanna og allt það þegar það frumvarp var til umfjöllunar, meðal annars með tilliti til þessara verkefna sem sögð voru vænleg til flutnings og hafa verið rifjuð upp hér. Þegar skýrslan kom, um hvaða verkefni hefðu ekki hlotið náð, kom margt mér afskaplega mikið á óvart, þ.e. hvað varðar tillögur sýslumanna um verkefnaflutninga; ég nefni útgáfu prófskírteina og löggildingar, álagningu og innheimtu vantryggingagjalds eða umsjón með þjóðlendum sem einu sinni var í höndum sýslumanns Snæfellinga. Það er svo margt þarna sem ég skil ekki, bara engan veginn, að hafi ekki hlotið hljómgrunn í ráðuneytunum. Ég tek undir það að við höldum áfram að hamast á þessu og eins og hæstv. ráðherra sagði þá holar dropinn steininn. Stundum þarf líka bara pólitíska ákvörðun innan ráðuneytanna til þess (Forseti hringir.) að hlutir geti orðið að veruleika og til þess að hægt sé að standa við stóru orðin sem (Forseti hringir.) sögð voru þegar umrædd lagafrumvörp voru samþykkt.