144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

flutningur verkefna til sýslumanna.

548. mál
[18:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og heiti stuðningi við vinnu hennar við að reyna að fylgja þessu bráðabirgðaákvæði laganna eftir. Það eru mörg vel heppnuð dæmi um verkefni sem hafa verið færð til sveitarfélaga úti á landi, meðal annars til innheimtustofnunar sekta á Blönduósi. Nefnt hefur verið hvort ekki ætti að færa innheimtu fyrir lánasjóðinn undir þá stofnun. Það er frá einkaaðilum, ríkið kaupir innheimtuþjónustu, og mundi falla mjög vel að þeirri vinnu sem nú þegar er þar til staðar. Við erum einnig með önnur verkefni sem gætu hentað mjög vel þarna.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til að skoða samstarf, og það hefur aðeins verið nefnt, sveitarfélaga og ríkisins varðandi þessar þjónustuskrifstofur. Við erum ekki bara að tala um sýslumannsskrifstofurnar, við erum líka að tala um fyrrverandi sýslumannsskrifstofur, þ.e. þjónustumiðstöðvar í héraði, sem gætu tekið að sér verkefni, jafnvel gæti þjónusta fyrir ríki og sveitarfélög orðið á einum stað. Ég held að það væri þess virði að skoða það betur og tryggja þannig að við fáum bætta þjónustu úti á landsbyggðinni sem er gríðarlega mikilvægt.

Það skiptir miklu máli þegar svona mikilvæg og stór mál eins og þessi sameining öll var — þverpólitísk samstaða náðist um þessa gríðarlega miklu breytingu, en það var meðal annars vegna þess að gefin voru fyrirheit um ákveðna hluti í tengslum við hana. Þess vegna er mjög mikilvægt að við fylgjum þeirri samþykkt Alþingis eftir. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða hvað það varðar og vænti þess að við fáum í allsherjar- og menntamálanefnd, og vonandi hér inn í þingið, framhaldsskýrslu og nýja aðgerðaáætlun sem vitni um betri árangur en í þessari fyrstu tilraun.