144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

nýframkvæmdir í vegamálum.

565. mál
[18:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að leyfa mér að koma inn í þessa umræðu. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að mikilvægt er að fara í öryggismál, viðhald og almenningssamgöngur eins og boðað hefur verið. En ég held að aldrei hafi verið jafn aumt ástand varðandi nýframkvæmdir og við höfum séð á þessu ári þrátt fyrir að hagur þjóðarbúsins hafi vænkast.

Það fer að verða ansi langur tími frá því við fengum loforð um að samgönguáætlun væri að koma fram. Maður hefur beðið með að fjalla um einstök mál þangað til sú áætlun liggur fyrir. En ég get ekki stillt mig um að spyrja hæstv. ráðherra um það hvað Teigsskógsmálinu líði, þ.e. Vestfjarðavegi 60. Við höfum ítrekað átt fundi með fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra þar sem samráð var boðað og reynt að fylgja því eftir að menn fengju að fylgjast nákvæmlega með hvernig þeim málum reiddi af.

Ég treysti á það að menn standi við þær yfirlýsingar sem voru gefnar af fyrrverandi ráðherra, og ég veit að núverandi hæstv. ráðherra hefur í sjálfu sér tekið undir, þ.e. að forgangsverkefni í nýframkvæmdum eigi að vera á Vestfjörðum, þrátt fyrir allt. (Forseti hringir.) Þar er verið að tala um frumlagningu vega, hvort sem eru ný göng eða Teigsskógurinn, Teigsskógurinn á að vera þar á undan.