144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

nýframkvæmdir í vegamálum.

565. mál
[18:22]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa umræðu, hún er mjög þörf. Ég hef fullan skilning á því og öfunda ekki hæstv. samgönguráðherra að þurfa að standa í þessum málum vegna fjárskorts og annars. Það er alveg sama hvert maður fer, það vantar alls staðar peninga til þess að fara í nýframkvæmdir í vegagerð.

Það sem ég vildi vekja máls á í þessari umræðu er ástandið sem er að skapast á vegum landsins í dag, það er vægast sagt alvarlegt og ekki síst í ljósi þess að ferðamannafjöldinn eykst dag frá degi. Ég bý suður á nesjum. Núna bara í síðustu viku fengum við þingmenn Suðurkjördæmis bréf frá bæjarstjórninni í Garði og frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum þar sem áréttað er það ótrúlega álag sem er orðið á vegum eins og t.d. í Grindavík. Um daginn var ég að keyra Grindavíkurveginn eldsnemma á laugardagsmorgni. Ég mætti ellefu rútum á leiðinni í Bláa lónið. Vegurinn þar er vægast sagt í slæmu ástandi og það horfir til stórkostlegra vandræða. En ég vona að við náum að fá peninga í viðhaldsverkefnin fyrst og fremst og kannski bíða með nýframkvæmdir.