144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

Norðfjarðarflugvöllur.

566. mál
[18:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það er með viðhald á flugvöllum vítt um land eins og með viðhald á vegunum að ýmislegt er þar óunnið eins og við þekkjum, gríðarleg viðhaldsþörf á öðrum flugvöllum, t.d. í Norðausturkjördæmi sem við vonumst til þess að við getum farið í. Ég nefni Húsavík og Vopnafjörð sérstaklega og við vonumst til að við séum með nægilegt fé til þess að geta tekið á því.

Norðfjarðarflugvöllur er ekki í forgangi hvað það varðar þannig að ég segi það bara strax. Ég vil líka segja það til upplýsingar að ekki hefur verið vakin sérstök athygli mín á Norðfjarðarflugvelli í þessu samhengi, þannig að það sé á hreinu. Síðan skiptir auðvitað máli, hvort sem það dugar eða dugar ekki, varðandi öryggi í Norðfirði og sjúkrahúsið þar að við erum að koma samgöngunum í miklu betra horf eins og hv. þingmaður þekkir best af öllum. Þegar Norðfjarðargöng verða að veruleika mun það breyta verulega miklu fyrir Norðfjörð. En það breytir hins vegar ekki því að Norðfjarðarflugvöllur er malarvöllur og hann er alls ekki fullnægjandi ef við lítum á hann með þeim gleraugum í samanburði við aðra velli. Flugvöllurinn er notaður til sjúkraflugs og tilfallandi einkaflugs. Það eru engir fjármunir í samgönguáætlun frá árinu 2011–2022 í stofnframkvæmdir á flugvöllum utan grunnnetsins eins og þessi flugvöllur er á tímabilinu 2015–2018, en 140 millj. kr. á tímabilinu 2019–2022, sem er auðvitað lág fjárhæð þegar við lítum til þess kostnaðar sem fylgir því að halda við flugvöllum.

Sama er að segja um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2013–2016, sem lögð var fram í fyrra eða í hittiðfyrra reyndar og uppfærð í fyrra en í hvorugt skiptið náði hún fram að ganga hér á þinginu. Undanfarin ár hafa fjármunir til flugvalla verið minni en ráð var fyrir gert í samgönguáætlun og því er, eins og ég sagði áðan, mikil viðhaldsþörf í kerfinu öllu. Tímabundin aukin framlög nú fara fyrst og fremst í viðhald. Stefnt er að því að viðhalda vellinum þannig að sinna megi sjúkraflugi um hann og þá er líka mjög brýnt að hægt sé að lenda á Reykjavíkurflugvelli, svo að ég nefni það nú. Ekki er fyrirhuguð stefnubreyting að þessu leyti með tilkomu Norðfjarðarganga.

Hvað þarf til að völlurinn uppfylli skilyrði og verði nothæfur til sjúkraflugs allt árið? er spurt. Þá er því til að svara að flugvöllurinn er malarvöllur eins og hér kom fram, og í honum eru miklar frosthreyfingar vegna undirlagsins sem við þekkjum í Norðfirði, og hann getur verið mjög blautur þegar frost fer úr jörðu og miklar umhleypingar eru í því dalverpi þar sem hann stendur. Flugbrautin getur verið ónothæf og hefur verið það svo sannarlega meðan slíkt ástand ríkir. Til að koma í veg fyrir þetta þarf að klæða brautina alveg og það þarf að fara svolítið neðar til þess að geta gert það.

Mannvit gerði forathugun á endurbótum flugbrautarsvæðisins á árinu 2008. Endurbyggingin felur í sér að skipta út fínefnaríkri grúsarfyllingu á bilinu 20–50 sentimetra fyrir hreina og frostörugga grús og leggja ofan á burðarlag og síðan tvöfalda klæðningu. Ég hef ekki fengið neinar upplýsingar um að grús sem kæmi úr göngunum mundi gagnast þarna. Ég hef meira heyrt um að efni úr Vaðlaheiðargöngum nýtist flugvellinum á Akureyri, en ég segi það hreint út, þessu hefur ekki verið flaggað við mig. Að lokum þarf síðan að laga vatnshalla brautar og öryggissvæði þannig að vatn renni sem mest sjálft af vellinum. Vinna stendur yfir við endurmat á frumkostnaðaráætluninni frá 2008 sem hljóðaði upp á 104 milljónir. Miðað við þróun byggingarvísitölu gæti sú upphæð núna numið um 145 milljónum.

Það er svo sem engu frekar við þetta að bæta af minni hálfu. Það stendur ekkert sérstakt til að þessu leyti á þessum tímapunkti, en enn og aftur ræðst það af fjármagni og forgangsröðun hvaða flugvellir eru fyrstir og hvar þörfin er mest. Og eins og sakir standa eru aðrir vellir framar í röðinni.