144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

Norðfjarðarflugvöllur.

566. mál
[18:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir þessa umræðu og svör ráðherrans. Það sem ég vil halda áfram með er að það var mjög gott að tekin var 500 millj. kr. arðgreiðsla af Isavia fyrir þetta ár sem á að nota í nokkra flugvelli samkvæmt því sem talið hefur verið upp til viðhalds og viðgerða, sama hvort það er á flugleiðsögubúnaði, ljósum eða yfirborði valla.

Það sem ég geri hér að umtalsefni er Norðfjarðarflugvöllur sem fékk ekki mikla umfjöllun og hefur ef til vill verið látinn liggja allt of lengi í láginni og ekki fjallað um eins og ég er að gera núna. Ég er að tala um það, virðulegi forseti, að heildarkostnaður við að byggja völlinn upp sé í kringum 150 millj. kr. Það er í raun og veru allt og sumt. Ég legg áherslu á að ég er að tala um völlinn vegna Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað og starfseminnar þar. Það er mjög mikilvægt.

Virðulegi forseti. Ég vil hreyfa einni hugmynd við hæstv. ráðherra. Hún er sú að innanríkisráðuneytið með ráðherrann í broddi fylkingar óski jafnvel eftir viðræðum við heimamenn, við Fjarðabyggð, þar sem eru mjög framsýnir bæjarfulltrúar allir og lausnamiðaðir. Við höfum oft séð hvernig bæði bæjaryfirvöld og sterk og öflug fyrirtæki á því svæði hafa komið inn í og viljað taka þátt í að leysa málin. Ég get nefnt tæki í sjúkrahúsið og fleira og fleira sem eru algjörlega gefin af heimamönnum. Ég hvet til þess, vegna þess að eins og ég sagði áðan gefst alveg ótrúlega gott tækifæri til að gera þetta núna með því að nota hratið úr göngunum. Verktakinn býður auðvitað í það eins og hver annar, en verktaki sem er með mikið af tækjum á staðnum sér sér hugsanlega mikinn hag í því að bjóða betur. Og segjum sem svo að við fáum upp undir 20% lægra tilboð, mundu 30 milljónir sparast bara vegna þess. (Forseti hringir.)

Ég vil því nota tækifærið um leið og ég þakka ráðherra fyrir svörin að hvetja hana til þess að athuga með að ræða við (Forseti hringir.) bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð um lausn á þessu máli og hvort við getum ekki nýtt tækifærið (Forseti hringir.) sem er svo brýnt að nota núna vegna framkvæmdanna við Norðfjarðargöng.