144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

uppbygging lögreglunáms.

584. mál
[18:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Mig langar að taka hér upp málefni lögreglunáms og lögreglumenntunar á Íslandi. Eins og kunnugt er var ágætri skýrslu skilað til innanríkisráðherra þann 15. september 2014 þar sem gerðar voru nokkuð ítarlegar tillögur að framtíðarskipan lögreglumenntunar. Þar var meðal annars lagt til að samið yrði við skólastofnun í almenna menntakerfinu um kennslu grunnnáms og eftir atvikum framhaldsnáms, að námið yrði sem sagt fært upp á háskólastig. Lögregluskólanum yrði eiginlega breytt í nokkurs konar fræða- og rannsóknarsetur undir ríkislögreglustjóra og samið yrði við skólastofnun um að sinna náminu. Háskólinn á Akureyri og Keilir voru sérstaklega nefndir. Enn fremur eru ýmsar aðrar ágætar tillögur sem þarna liggja undir, meðal annars um að aldurshámark verði afnumið, lögð verði áhersla á fjarnám og eins og ég sagði hér áðan verði stöðu Lögregluskólans sem slíks breytt yfir í fræðslu- og rannsóknarsetur þar sem væntanlega er líka verið að gera sér hugmyndir um öfluga endurmenntun, símenntun og annað slíkt.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er að í kjölfar þessarar skýrslu var skipaður framhaldshópur, í janúar 2015, sem átti að útfæra nánar tillögur um fyrirkomulag lögreglunáms. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvenær við eigum von á því að sá hópur ljúki störfum, því að þetta mál hefur verið talsvert lengi til umræðu og ýmsar skoðanir eru uppi. Ég vil segja það fyrir mig að þarna eru rök með ýmsum leiðum, þannig að ég hef sjálf ekki endanlega mótað mér afstöðu til þess hvaða leið er best að fara, en ég er hins vegar sannfærð um að það er gríðarlega mikilvægt og brýnt verkefni að efla lögreglunám og -menntun þannig að þessi mikilvæga starfsstétt geti tekist á við þau verkefni sem okkar breytta samfélag er að fást við.

Mig langar líka að spyrja ráðherra hvort hún hafi lokið við að móta sér afstöðu til tillagna, til að mynda um þá grundvallarspurningu að færa námið upp á háskólastig og það sé gert á þann veg að semja við skólastofnun frekar en með öðrum hætti.

Það vakti athygli mína að hópurinn sem er skipaður í framhaldinu var, samkvæmt fréttum, skipaður tveimur þingmönnum stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og svo lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Mig langaði að spyrja ráðherrann, í ljósi þess að þarna er verið að efna til samráðs við þingið en aðeins hluta þess, hvort ekki hafi komið til greina að hafa slíkt samráð á þverpólitískum grunni þar sem þetta er hagsmunamál sem varðar okkur öll, eða hvort aðrar ástæður réðu því að ákveðið var að fara ekki þá leið að óska eftir tilnefningum allra flokka en einungis skipa þingmenn stjórnarflokkanna. Mér finnst það satt að segja ákveðin nýlunda að sjá þingmenn (Forseti hringir.) meiri hlutans skipaða í slíka hópa sem eru fyrst og fremst, getum við sagt, að fást við faglegt úrlausnarefni.