144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

uppbygging lögreglunáms.

584. mál
[18:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög heiðarleg svör. Ég get borið virðingu fyrir því að sumt þarf maður að ganga lengur með en annað; sum börn þarf maður að ganga lengur með en önnur, þannig er það bara.

Ég vil segja það um tillögurnar sjálfar að mér finnst þær lýsa ákveðnum metnaði fyrir lögreglunám og menntun í landinu sem er mikilvægt. Í skýrslunni er þróunin eingöngu borin saman við Danmörku og Noreg, þar hefur þetta nám verið fært upp á háskólastig. Ég segi það fyrir mína parta að ef ráðherra hefði efnt til þverpólitísks samráðs hefði ég haft mikinn áhuga á að fá nánari greiningu á því hvernig málum sé til að mynda háttað annars staðar í Evrópu, svo að dæmi sé tekið, og fá þær upplýsingar fram. Ég er búin að lesa þessa skýrslu og það sló mig að fulltrúar stjórnarflokkanna væru aðilar að vinnu sem mér finnst mikilvægt að sé vel unnin, vinnu sem skipti máli fyrir menntakerfið, samfélagið og okkur öll. Þess vegna vil ég brýna ráðherra í því að efna til þverpólitísks samráðs.

Ég hef séð þessa þróun víðar. Til að mynda hefur það komið fram að þingmenn stjórnarflokkanna komi að málefnum sameiningar háskóla — það heyrir ekki undir hæstv. innanríkisráðherra. Þegar um er að ræða mál sem fyrst og fremst skiptir máli að við náum faglega góðum árangri í þá legg ég mikla áherslu á að við reynum að hafa samráðið sem mest, bæði innan pólitíkurinnar en líka við samfélagið.

Ég hvet því ráðherra til þess en ber virðingu fyrir því að ekki hafi enn verið tekin afstaða í málinu. Ég lýsi hins vegar yfir miklum áhuga á því að koma að inntaki máls, því að þetta skiptir mjög miklu máli fyrir þróun löggæslunnar á næstu árum. Við horfum upp á gerbreytt samfélag, eins og ég náði að tæpa lauslega á hér áðan, hvað varðar netnotkun, tækninotkun og ýmsa hluti. Miklu skiptir líka að standa vörð um frelsi og réttindi borgaranna sem þarf að vera hluti af þessu námi. (Forseti hringir.) Þarna erum við að fást við stórmál og ég lýsi alla vega okkar vilja til að taka þátt (Forseti hringir.) í mótun þeirra tillagna.